Miðvikudagur, 24 Apríl 2019 16:39

Landsliðsverkefni í hópfimleikum - Vinnustofur og dagskrá

Kæru félög,

Nú er landsliðs verkefnið Evrópumótið í hópfimleikum 2020 (EM2020) farið af stað og margt spennandi framundan. Hér má finna allar helstu upplýsingar um verkefnið og drög að fyrstu dagskrá má sjá neðar í póstinum. Athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Um mótið:

Mótið verður haldið í Kaupmannahöfn dagana 15.-18. október 2020 og mun fara fram í Ballerup Super Arena. Stefna Fimleikasambandsins er að senda fjögur lið á mótið, tvö í fullorðinsflokki og tvö í unglingaflokki.

Markmið árið 2019:

Þetta er í fyrsta skipti sem landsliðs verkefni í hópfimleikum er sett upp á þennan máta, en aldrei hefur verið byrjað á verkefninu svona tímalega. Markmiðið er að nýta nálægðina sem Ísland býður uppá, leyfa landsliðunum að æfa oftar saman og þannig móta stefnuna skýrar fram að EM2020. Þannig geta þjálfarar einnig fylgst betur með iðkendum yfir árið. Að loknu EM2020 er stefnan að halda verkefninu gangandi fram að EM2022 og verða því úrvalshópar og landsliðsþjálfarar starfandi allt árið.

Verkefnið 2019 og opnar æfingar:

Verkefnið í ár hófst með opnum æfingum en markmiðið með þeim er að sjá hvernig iðkendur standa og út frá þeim velja inn í úrvalshópa á hverjum tímapunkti. Opnar æfingar verða að meðaltali á þriggja mánaða fresti í gegnum ferlið og er öllum þeim sem eru ekki í úrvalshóp ávallt boðið á þær æfingar. Að þeim æfingum loknum verða úrvalshópar endurmetnir og tilkynntir viku síðar. Þannig hafa allir iðkendur möguleika á að komast inn í úrvalshóp yfir allt árið og þar til landsliðshópar verða tilkynntir fyrir EM2020. Landsliðsþjálfarar munu ávallt velja besta hópinn hverju sinni sem þýðir að nýjir iðkendur geta bæst við, en að sama skapi aðrir dottið út.

Tilkynning á liðum:

Úrvalshópar fullorðinna:

Landsliðsþjálfarar eru að klára að fara yfir niðurstöður af fyrstu æfingum úrvalshópa í fullorðinsflokki. Fyrstu lið í úrvalshópi fullorðinna verða tilkynnt á föstudaginn næstkomandi, þann 26. apríl 2019. Líkt og bent var á hér fyrir ofan þá verða úrvalshópar endurskoðaðir að loknum opnum æfingum og allir sem eru ekki í hóp að þessu sinni hafa möguleika á að koma inn í úrvalshóp fram í maí 2020 þegar landsliðshópar fyrir EM verða kynntir. Dagskrá fyrir úrvalshópa fullorðinna má sjá neðst í póstinum.

Úrvalshópar unglinga:

Hópar í unglingaflokki verða ekki tilkynntir fyrr en eftir 18. maí, þegar haldnar hafa verið opnar æfingar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Sjá dagskrá hér fyrir neðan.

Vinnustofur - Kynning á verkefninu:

Vinnustofur verða haldnar á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi tvisvar sinnum yfir árið. Þar verður verkefnið stuttlega kynnt en þar á eftir fara landsliðsþjálfarar yfir þær æfingar sem þeir stefna að með landsliðum og sýna undirbúningsæfingar sem þeir munu leggja áherslu á í gegnum ferlið. Að loknum vinnufundum fá félagsþjálfarar kynningarefni og myndbönd með undirbúningsstöðvum og tækniæfingum sem landsliðsþjálfarar mæla með í undibúningi fyrir mótið. Vinnustofurnar verða settir upp í formi þjálfaranámskeiðis, en markmið þeirra er að jafna tækifæri iðkenda í undirbúningi fyrir mótið og hámarka möguleika Íslands á Evrópumótinu 2020.

Fyrstu vinnustofur verða haldnar 4. maí 2019. Fyrir þá sem ekki sjá sér fært að koma, verður kynningin tekin upp á myndband og því deilt með þeim sem þess óska. Ath. við biðjum alla sem mæta að koma með 2-4 “kanínur” (iðkendur) með sér, sem munu aðstoða við að sýna æfingarnar. Hér má sjá staðsetningu og dagkrá;

Dagsetning: 4. maí 2019

Staðsetning: Akureyri

Tímasetning: Kl. 10:30-15:00

Vinsamlega skráið ykkur hér: https://forms.gle/hsNkXQjgZNL334Rt9

Dagskrá:

 • Kl. 10:30 - 12:00 = Kynning á verkefninu í Giljaskóla á Akureyri
 • Kl. 12:00 - 13:00 = Hádegishlé
 • Kl. 13:00 - 15:00 = Verklegt í fimleikahúsi Akureyrar. Farið verður í gegnum allar stöðvar og tækniæfingar í þeim stökkum og dansæfingum sem stefnt er að. Þjálfarar mæta með iðkendur með sér sem eru nýttir í að sýna stöðvar. Ath. Kanínur eiga að mæta kl. 12:30 og byrja að hita sig sjálfar upp.

Dagsetning: 4. maí 2019

Staðsetning: Stjarnan, Ásgarði, Garðabæ

Tímasetning: 13:30-18:00

Vinsamlega skráið ykkur hér: https://forms.gle/hsNkXQjgZNL334Rt9

Dagskrá:

 • Kl. 13:30-15:00 = Kynning á verkefninu í fundarherbergi í Ásgarði, Garðabæ
 • Kl. 15:00-16:00 = Pása
 • Kl. 16:00-18:00 = Verklegt í fimleikahúsi Stjörnunnar, Ásgarði. Farið verður í gegnum allar stöðvar og tækniæfingar í þeim stökkum og dansæfingum sem stefnt er að. Þjálfarar mæta með iðkendur með sér sem eru nýttir í að sýna stöðvar. Ath. Kanínur eiga að mæta kl. 15:30 og byrja að hita sig sjálfar upp.

Drög að dagskrá fyrir árið 2019:

Athugið að tímasetningar og staðsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

 • 26. apríl: Úrvalshópur fullorðinna tilkynntur.
 • 1. maí: Æfing fyrir úrvalshóp fullorðinna kl. 12:00-16:00, í Íþróttafélaginu Gerplu, Vatnsenda.
 • 4. maí: Vinnustofa fyrir félagsþjálfara á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir þá sem ekki sjá sér fært að koma, verður kynningin tekin upp á myndband og því deilt með þeim sem þess óska.
 • 4. maí: Opin æfing fyrir unglinga, kl. 15:30-18:00 í fimleikasalnum á Akureyri:
  • Fyrir alla iðkendur sem eru fæddir 2005 og fyrr, bæði stelpur og stráka. Æfingin er haldin fyrir þá sem ekki komust á opnu æfinguna sem haldin var á höfuðborgarsvæðinu 20. mars.
  • Við tökum það fram að iðkendum er að sjálfsögðu velkomið að koma frekar á opnu æfinguna sem fer fram á höfuðborgarsvæðinu 18. maí.
 • 4. maí: Þrekpróf fyrir alla í úrvalshópum fullorðinna í Íþróttafélaginu Gerplu, Vatnsenda, kl. 13:30-16:00.
  • Þrekpróf tekið af Viktoiju Riskute, masters nema í Íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík (HR). Félagsþjálfarar eru velkomnir en nemar við HR sjá alfarið um framkvæmd og mælingar prófsins. Alls verða tekin tvö þrekpróf á úrvalshópum yfir árið. Þetta er samstarfsverkefni á milli HR og Fimleikasambandsins, en niðurstöður prófsins verða sendar á félagsþjálfara, samþykki iðkendur/foreldrar það og nýttar til að styrkja líkamlega getu iðkanda.
 • 18. maí: Opin æfing fyrir unglinga á höfuðborgarsvæðinu. Staðsetning kemur síðar.
  • Fyrir alla iðkendur sem eru fæddir 2005 og fyrr, bæði stelpur og stráka. Æfingin er haldin fyrir þá sem ekki komust á opnu æfinguna sem haldin var á höfuðborgarsvæðinu 20. mars.
 • 22. maí: Úrvalshópar unglinga tilkynntir.
 • 29. júní: Æfing hjá öllum úrvalshópum.
 • 10. ágúst: Æfing hjá öllum úrvalshópum.
 • 31. ágúst: Æfing hjá öllum úrvalshópum.

 

Áfram Ísland
#fyririsland
#fimleikarfyriralla
#islenskirfimleikar