Fimmtudagur, 12 Mars 2020 12:40

Björn og Hlín á Ólympíuleikana í Tokyo

Það er mikill heiður fyrir Fimleikasamband Íslands að tveir af okkar reynslumestu dómurum, Hlín Bjarnadóttir og Björn Magnús Tómasson, hafa verið valin af Alþjóða Fimleikasambandinu til að dæma Ólympíuleikana í Tokyo.

Bæði Björn og Hlín eru með áralanga reynslu í dómgæslu.

Björn hefur verið alþjóðlegur dómari í áhaldafimleikum karla síðan 1993. Hann er reynslumesti dómari Íslands í áhaldafimleikum karla og hefur dæmt fjölda stórmóta. Ólympíuleikarnir í Tokyo verða fjórðu leikar sem Björn dæmir, en hann hefur áður dæmt leikana í Sydney 2000, Aþenu 2004 og London 2012.

Hlín hefur verið alþjóðlegur dómari í áhaldafimleikum kvenna síðan 2001. Hlín er einn af okkar reynslumestu dómurum í áhaldafimleikum kvenna. Þetta verða fyrstu leikarnir sem Hlín dæmir, en Hlín dæmdi á “Test event” í Ríó fyrir Ólympíuleikana 2016 ásamt því að hún hefur dæmt fjöldamörg stórmót.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þau tvö hafa verið valin til að dæma stórmót, en bæði Hlín og Björn voru valin af Evrópska Fimleikasambandinu til að dæma Evrópuleikana árin 2015 og 2019.

Til hamingju Björn og Hlín!

Áfram Ísland