Reglur FSÍ um félagaskipti

Reglur FSÍ um félagaskipti 

1. gr.
Gildissvið og markmið

Reglur þessar er ætlað að tryggja skýrar og afmarkaðar reglur um félagaskipti keppenda í fimleikum sem falla undir reglurnar. Reglurnar taka til fimleikafólks sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
a) Eru keppendur í áhaldafimleikum karla og kvenna 12 ára og eldri m.v fæðingarár, sem keppt hafa á mótum FSÍ á Íslandi, á mótum UEG og/eða FIG erlendis
b) Eru keppendur í hópfimleikum, 12 ára og eldri m.v fæðingarár, sem keppt hafa á mótum FSÍ á Íslandi, á mótum UEG og/eða FIG erlendis.

2. gr.
Félagaskiptatímabil

Keppendum í fimleikum sem falla undir reglur þessar er heimilt að eiga félagaskipti á tímabilinu frá 1.- 15. janúar og 1. ágúst – 15. september, að báðum dögum meðtöldum. Á öðrum tímabilum eru félagaskipti ekki heimil.

Þrátt fyrir 1. mgr. eru félagaskipti heimil ef fimleikadeild félags er lögð niður í heild sinni, eða flokkur eða þrep, sem keppandi keppir í hefur ekki tekið þátt í tveimur mótum eða verið dregið til baka úr tveimur mótum á vegum FSÍ á því keppnistímabili. 

Tilkynningar um félagaskipti, sem berast FSÍ utan félagaskiptatímabils skulu teljast afhentar á fyrsta degi næsta félagaskiptatímabils á eftir.

3. gr.
Tilkynningar um félagaskipti 

Tilkynningar um félagaskipti skal afhenda á skrifstofu FSÍ á þar til gerðu eyðublaði. FSÍ skal innheimta félagaskiptagjald, fimleikamaðurinn er ábyrgur fyrir greiðslu þess gjalds sem ákvarðar er að stjórn FSÍ. 

FSÍ staðfestir félagaskipti innan tveggja vikna frá móttöku tilkynningar. Til að félagaskiptin teljist  lögleg þarf formaður aðalstjórnar eða fimleikadeildar þess félags er fimleikamaðurinn hverfur frá, að staðfesta með undirskrift sinni og stimpli félags að fimleikamaðurinn sé skuldlaus félaginu.  Sé keppandi undir lögaldri þarf samþykki foreldris eða forráðamanns á tilkynningu um félagaskipti. 

4. gr.
Gildistaka félagaskipta

Félagaskipti skulu miðast við þann dag sem FSÍ sendir staðfestingu á félagaskiptum. Sé tilkynningin ekki útfyllt í samræmi við ofanskráð, tilkynnir FSÍ. félaginu sem fimleikamaðurinn óskar eftir að ganga úr um félagaskiptin. Svari félagið ekki innan 30 daga, teljast félagaskiptin lögleg. 

5. gr.
Birting

FSÍ er heimilt að senda staðfestingu um félagaskipti með tölvupósti. FSÍ staðfestir félagaskiptin með tölvupósti til fráfarandi félags, nýja félagsins og fimleikamannsins og frá hvaða tíma keppandi telst löglegur með nýja félaginu. 

6. gr.
Ágreiningur

Komi upp ágreiningur um félagaskipti skal stjórn FSÍ úrskurða í málinu. Úrskurði þessum geta báðir aðilar áfrýjað til dómstóls ÍSÍ. 

7. gr.
Gildistaka

Reglur þessar eru settar með stoð í 24. gr. laga um Fimleikasamband Íslands og öðlast gildi við birtingu á vef Fimleikasambandsins. Samhliða því fellur 12 gr. reglugerðar FSÍ um félagaskipti úr gildi.