Siðareglur FSÍ

I. Inngangur

Markmið siðareglna þessara er að:
• koma í veg fyrir einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi innan FSÍ, m.a. með forvörnum;
• stuðla að gagnkvæmri virðingu innan FSÍ, með því að auka vitund og skilning á að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi er hegðun sem líðst ekki innan sambandsins;

Stjórn Fimleikasambands Íslands („FSÍ“) hefur sett á laggirnar aga- og siðanefnd FSÍ, sem hefur leiðbeinandi- og ráðgefandi hlutverk í málum sem snerta aga- og siðareglur sambandsins. Nefndin er ráðgefandi um það til hvaða aðgerða ráðlagt sé að grípa til ef fram kemur kvörtun, rökstuddur grunur eða ábending um einelti, ofbeldi eða kynferðislega- eða kynbundna áreitni í tengslum við starfsemi á vegum eða ábyrgð FSÍ. Þá mun nefndin stuðla að og efla forvarnir með leiðbeiningum og fræðslu, m.a. til aðildarfélaga FSÍ, til þess að koma í veg fyrir að slík háttsemi viðgangist innan aðildarfélaga og að til staðar sé viðbragðsáætlun komi slík mál upp.

Stjórn FSÍ hefur samþykkt siðareglur og hegðunarviðmið á grundvelli ráðgjafar aga- og siðanefndar FSÍ. Siðareglur þessar og hegðunarviðmið eiga við um alla kjörna aðila og starfsmenn FSÍ, fulltrúa og sjálfboðaliða sem sinna störfum fyrir hönd eða á vegum FSÍ eða eru í ábyrgðarhlutverki í ferðum, á mótum og öðrum uppákomum á vegum sambandsins. Jafnframt eru hluti af siðareglum þessum hegðunarviðmið FSÍ.


II. Siðareglur:
1. Við komum fram af fullkomnum heilindum og látum framkomu okkar endurspegla viðhorf okkar til grundvallarreglna og markmiða FSÍ.
2. Mikilvægt er að stuðla að gagnkvæmri virðingu, svo sem með því að auka vitund og skilning á að einelti, ofbeldi og kynferðislegri- og kynbundinni áreitni . Slík hegðun líðst ekki innan FSÍ.
3. Forðastu að upp komi sérhver sú staða sem leitt getur til hagsmunaárekstra.
4. Vertu hlutlaus í samskiptum þínum við opinberar stofnanir, innlend og alþjóðleg samtök sem og önnur sambönd eða hópa í samræmi við grundvallarhugsjónir íþróttahreyfingarinnar.
5. Gættu þess að misbjóða ekki virðingu einstaklinga eða hópi einstaklinga t.d. hvað varðar kynferði, þjóðerni, kynþátt, litarhaft, menningu, tungumál, trúarbrögð, kynhneigð og stjórnmálaskoðanir.
6. Tryggðu að persónuleg réttindi þeirra aðila sem þú ert í sambandi við og átt í samskiptum við séu varin, virt og tryggð.
7. Gerðu þér grein fyrir trúnaðarskyldum við störf.
8. Taktu ekki við gjöfum og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist. Gefðu heldur ekki gjafir og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist.
9. Þiggðu aldrei mútur.
10. Taktu aldrei við umboðslaunum eða loforðum um umboðslaun, fyrir hvers konar samningagerð við skyldustörf fyrir eða á vegum FSÍ.
11. Taktu aldrei, hvort heldur sem er með beinum eða óbeinum hætti þátt í veðmálum, fjárhættuspilum, happdrætti og þess háttar viðburðum eða viðskiptum í tengslum við íþróttaviðburði sem þú getur haft áhrif á.


III. Hegðunarviðmið FSÍ
Hegðunarviðmið þessi byggja m.a. á hegðunarviðmiðum sem ÍSÍ hefur sett.

Fyrir iðkendur:
1. Gerðu alltaf þitt besta og berðu virðingu fyrir öðrum.
2. Við tölum fallega við hvort annað.
3. Við líðum ekki dónalegar upphrópanir eða athugasemdir um líkama hvors annars.
4. Þekktu reglur íþróttagreinarinnar og vertu háttvís í hvívetna.
5. Taktu þátt af því að það er gaman, ekki til að þjóna hagsmunum styrktaraðila, foreldra eða þjálfara.
6. Berðu virðingu, bæði fyrir sam- og mótherjum.
7. Ekki láta í ljósi neikvæðar eða niðrandi athugasemdir gagnvart öðrum iðkendum, keppinautum, dómurum, þjálfurum og liðsstjórum sem og öðrum aðilum sem koma að íþróttastarfi með einum eða öðrum hætti.
8. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig.
9. Gerðu þér grein fyrir því að þú ert fyrirmynd þeirra sem yngri eru.

Fyrir þjálfara:
1. Vertu iðkendum þínum góð fyrirmynd og spornaðu gegn óíþróttamannslegri og niðurlægjandi hegðun.
2. Skapaðu jafna möguleika fyrir iðkendur til að þroska og nýta hæfileika sína og gættu þess að æfingar hæfi aldri og þroska.
3. Sýndu íþróttinni virðingu og virtu reglur hennar, venjur og siði. Stuðlaðu að því að iðkendur geri slíkt hið sama og kenndu þeim að virða aðra iðkendur, þjálfara, keppinauta og dómara.
4. Hrósaðu iðkendum og taktu tillit til aldurs og þroska.
5. Komdu eins fram við alla iðkendur og líttu meira til færni en árangurs.
6. Misnotaðu ekki stöðu þína og vald með eineltis-, kynferðislegum-, kynbundnum-, eða ofbeldis tilburðum eða með öðrum hætti.
7. Virtu friðhelgi einkalífs iðkenda og viðhaltu faglegum samskiptum.
8. Sæktu reglulega endurmenntun.
9. Leggðu þitt að mörkum til að skapa gott andrúmsloft og félagsleg tengsl.
10. Sýndu meiðslum og veikindum iðkenda tillitssemi.
11. Þjálfari fer ekki inn í búningsherbergi eða gistiaðstöðu sem ætlað er iðkanda af gagnstæðu kyni, nema gengið hafi verið úr skugga um að allir þar fyrir innan séu klæddir.
12. Þjálfari býður ekki iðkanda heim til sín.
13. Þjálfari tekur ekki að sér akstur fyrir iðkanda, hvorki á æfingar né mót.
14. Þjálfari leggur ekki iðkanda eða samstarfsmann í einelti og á ekki í samskiptum við iðkanda eða samstarfsmann með kynferðislegum undirtóni eða vísun til slíkrar líkingar.
15. Þjálfari setur sér fagleg mörk í hvers konar samskiptum við iðkanda.
16. Þjálfari á ekki í persónulegum samskiptum við iðkanda í gegnum samfélagsmiðla, sms skilaboð, síma né tölvupóst.
17. Þjálfari tekur ekki og birtir ekki myndir af iðkanda á samfélagsmiðum nema með fyrirfram gefnu samþykki forráðamanns/iðkanda.
18. Þjálfari veitir iðkanda ekki einkaæfingar.
19. Þjálfari gistir ekki í sama herbergi og iðkandi af gagnstæðu kyni í æfingar- og keppnisferðum.
20. Þjálfari gætir þess að öll snerting við iðkanda sé í samræmi við viðurkenndar aðferðir sem kenndar eru á þjálfaranámskeiði FSÍ.

Fyrir stjórnarmenn og starfsmenn:
1. Stattu vörð um grunngildi íþróttahreyfingarinnar, þ.á m. fimleikahreyfingarinnar.
2. Stuðlaðu að jöfnum tækifærum allra til þátttöku í fimleikum.
3. Stuðlaðu að því að sameiginlegum markmiðum fimleika verði náð.
4. Stuðlaðu að því að formlegum og siðferðislegum reglum og venjum sé fylgt.
5. Virtu lýðræðisreglur og gagnsæi við ákvarðanatöku og stjórnaðu samkvæmt reglum um ábyrga fjármálastjórn.
6. Vertu til fyrirmyndar í framkomu.
7. Leystu ágreining og árekstra á sanngjarnan hátt og til samræmis við reglur og venjur fimleikahreyfingarinnar.
8. Misnotaðu aldrei aðstöðu þína til að koma eigin hagsmunum á framfæri á kostnað fimleikahreyfingarinnar.

Fyrir foreldra og forráðamenn:
1. Mundu að barnið þitt tekur þátt sín vegna, ekki þín vegna.
2. Hvettu barnið til þátttöku í fimleikum en ekki þvinga það.
3. Útskýrðu fyrir barninu að starfið fari fram eftir ákveðnum reglum og kenndu því að leysa úr ágreiningi.
4. Styddu og hvettu öll börnin, ekki bara þitt eigið.
5. Sýndu jákvæðni, líka þegar á móti blæs.
6. Berðu virðingu fyrir ákvörðunum þjálfara, dómara og annarra starfsmanna fimleikahreyfingarinnar.
7. Berðu virðingu fyrir réttindum barna, aðlögun og manngildum - hvert barn er einstakt og þarfnast virðingar þinnar.
8. Upplýstu um einelti, kynferðislega-, og/eða kynbundna áreitni og ofbeldi, eða grun þar um.


Samþykkt á 13. stjórnarfundi FSÍ þann 16/01/2018 í Reykjavík.